Torfið - námskeið í hleðslutækni o.fl. í Íslenska bænum- sumar 2021

Submitted by gunnars@arborg.is on Fri, 05/28/2021 - 08:56
Image
Áhugavert námskeið í hleðslutækni o.fl.

Námskeið í hleðslutækni og torfbyggingafræðum, sjálfbærni og óáþreifanlegum menningararfi, staðbundnum og vistvænum arkitektúr. Hleðsluskólinn og Íslenski bærinn standa fyrir námskeiði í íslenskri hleðslutækni í samstarfi við Listaháskóla Íslands. Námskeiðið fer fram á torfbænum að Austur-Meðalholtum í Flóa og nágrenni hans. Aðal áherlsa er lögð á hefðbundið íslenskt hleðsluhandverk og notkun hefðbundinna verkfæra, einnig er hugmyndafræði torfbygginga krufin og hugað að fagurfræðilegum sérkennum. Námskeiðið er verklegt í bland við fyrirlestra. Farið verður yfir uppbyggingu veggja og húsþaka þar sem torf, grjót og mold er aðal efniviðurinn. Helstu hleðslluaðferðir verða útskýrðar og prófaðar. Einnig verða megingerðir torfstungu og ristu framkvæmdar með hefðbundnum verkfærum. Jafnframt verður leitast við að veita innsýn í hugmyndafræði og fagurfræði íslenskra torfbygginga stutt ítarlegum powerpoint fyrirlestrum um íslenskan torfbæjararf. Í húsakynnum Íslenska bæjarins er yfirgripsmikil sýning um íslenskan torfbæjar arf og þar er einnig að finna stórt safn hefðbundinna verkfæra á sviði torfskurðar, veggjarhleðslu, trésmíði og járnsmíði sem nemendum gefst kostur á að skoða. 

Kennarar: Hannes Lárusson og Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir
Hæfnimarkmið: Gert er ráð fyrir því að nemendur öðlist grunnfærni í byggingu veggja úr torfi og grjóti, og fái grundvallar innsýn í ellefuhundruð ára sögu torfhúsa á Íslandi
Kennslutungumál: íslenska
Kennslufyrirkomulag: Verklegt námskeið í bland við fyrirlestra
Lengd námskeiðs: 4 dagar
Kennslutímabil: Þriðjudagurinn 22. júní til og með föstudagsins 25. júní
Kennslutími: Kennt er daglega frá kl. 10:00 til 16:30
Kennslustaður: Meðalholt í Flóa, Austur-Meðalholtum, 803 Selfossi (dreifbýli), 60 km frá miðbæ Reykjavíkur, 7 km fyrir sunnan Selfoss
Aðstaða: Nemendur koma sér sjálfir á staðinn daglega, búa sig eftir veðri og verða með nesti fyrir daginn
Einingar: Námskeiðið er kennt án eininga
Forkröfur: Námskeiðið er opið öllum 18 ára og eldri
Markhópur: Áhugafólk um torfhleðslur
Verð: Hvert sumarnámskeið kostar 3.000 kr. alls, vinsamlegast athugið að námskeiðsgjald er ekki endurgreitt nema námskeiðið falli niður
Nánari upplýsingar: Karólína Stefánsdóttir, verkefnastjóri, karolinas@lhi.is

Vegna COVID-19 getur fyrirkomulag kennslu breyst með litlum fyrirvara 

Aldur
Tölvupóstur