Frjálsíþróttasumarbúðir 2021

Submitted by gunnars@arborg.is on Tue, 05/11/2021 - 22:19
Image
Frjálsíþróttasumarbúðirnar verða haldnar í 13. sinn í sumar

Við erum búin að opna fyrir skráningar fyrir Frjálsíþróttasumarbúðir FRÍ sem haldnar verða á Selfossi. Í fyrra gekk vel að halda sumarbúðirnar í þessum Covid faraldri. Við höldum í vonina að staðan á faraldrinum verði góð og þetta muni ganga eins vel og það gerði í fyrra. Auðvitað þurfa allir að vera viðbúnir að plön geti breyst. 
Við viljum opna strax fyrir skráningar svo að við getum undirbúið okkur og krakkarnir haft eitthvað til að stefna að í sumar þar sem lítið er um utanlandsferðir og óvíst hvort stórir viðburðir verði haldnir.

Í sumar verða Frjálsíþróttasumarbúðir FRÍ starfræktar í þrettánda sinn á HSK svæðinu. Sumarbúðirnar verða haldnar á Selfossi dagana 27. júní til 1. júlí. Sumarbúðirnar eru ætlaðar fyrir börn á aldrinum 11 til 16 ára hvaðan sem er af landinu og ekki er gerð krafa um að barnið hafi áður stundað frjálsar íþróttir. Ungmennin koma saman um miðjan dag á sunnudegi og skólanum lýkur um hádegi á fimmtudegi í sömu viku. 

Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg, í bland við frjálsíþróttaæfingar er til dæmis farið í sund, bíóferð, ýmis konar leiki s.s. ljósmyndaratleik og hópefli, haldnar kvöldvökur og endar skólinn svo með frjálsíþróttamóti. Þátttökugjald í skólann er aðeins 26.000 kr. (21.000 kr fyrir systkini) en innifalið í því er þjálfun, fræðsla, fæði, gisting, bíóferð og önnur afþreying.  Aðalumsjónarmenn með sumarbúðunum líkt og undanfarin ár eru Ágústa Tryggvadóttir og Fjóla Signý Hannesdóttir. Einnig munu fleiri þjálfarar og aðstoðarmenn vinna við skólann. Lagt er upp með að fagmenntaðir kennarar sjái um kennsluna á hverjum stað til að tryggja sem besta kennslu fyrir ungmennin.

Í lok námskeiðsins fá öll ungmennin viðurkenningarskjal til staðfestingar um þátttökuna. Sumarbúðirnar hafa fengið eindæma góð viðbrögð og ungmennin hafa farið sátt heim eftir lærdómsríka, krefjandi en umfram allt skemmtilega viku.
 
Sumarbúðirnar gegna mikilvægu hlutverki í að opna augu ungmenna fyrir ágæti íþróttaiðkunar og styðja fjölmargar rannsóknir þá fullyrðingu að ungmenni sem stunda íþróttir leiðast síður út í óreglu síðar á lífsleiðinni. Síðast en ekki síst öðlast ungmennin tækifæri til að kynnast hvert öðru og mynda tengslanet og auka hæfni sína í mannlegum samskiptum. Sterk vináttutengsl hafa myndast á milli barnanna þessa viku. 

Undanfarin ár hafa sumarbúðirnar oft verið full bókaðar en hámarkið er við 60 iðkendur. Því er mikilvægt að tryggja sér snemma pláss í sumarbúðunum. 

Skráning fer fram í gegnum tölvupóst frjalsithrottaskoli@gmail.com
Pósturinn þarf að innihalda eftirfarandi:
Nafn 
Heimilisfang 
Staður 
Kennitala (barns) 
Félag (ef barnið er að æfa með félagi)
Sími 
Netfang 
Nafn forráðarmanns 
Sími forráðarmanns 
Ofnæmi eða annað sem gott er að vita-

Við erum búin að stofna Facebook hóp, þið getið séð hér (Frjálsíþróttasumarbúðir á Selfossi 2021). Þar getið þið fylgst með sumarbúðunum. Við setjum inn tilkynningar og myndir á hópinn.

Ef það eru einhverjar spurningar, ekki hika við að hafa samband við okkur.